Viðskipti innlent

Eurostat: Skattar eru langlægstir á Íslandi af Norðurlöndunum

Skattbyrðin á Íslandi er sú lægsta á öllum Norðurlöndunum, mæld sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í nýrri úttekt frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Úttektin nær yfir árið 2011 og þá voru skattar á Íslandi 35,9% af landsframleiðslu.

Danir eru með mestu skattbyrðina eða 47,7% af landsframleiðslu en í Svíþjóð eru þeir rúmlega 44%, í Finnlandi rúmlega 43% og í Noregi eru þeir 42,6%.

Skattar á Íslandi eru nokkuð undir meðaltalinu í 27 ríkjum Evrópusambandsins en það er 38,8% í þeim hópi. Fram kemur í úttektinni að skattar á Íslandi lækkuðu úr 37,1% frá árinu 2009 og niður í 35,9% árið 2011. Raunar hefur hlutfallið lækkað á öllum Norðurlöndunum á þessu tímabili.

Af ríkjum innan ESB má nefna að fyrir utan Norðurlöndin er Belgía með hæstu skattana en þeir nema rúmlega 44% af landsframleiðslu þar í landi. Í Þýskalandi er hlutfallið 38,7%, í Frakklandi tæp 44% og í Bretlandi er hlutfallið rúm 36%.

Í löndum eins og Írlandi, Lettlandi, Slóvakíu og Búlgaríu eru skattar undir 30% sem hlutfall af landsframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×