Viðskipti innlent

Fasteignaviðskipti eru að stærstum hluta milli einstaklinga

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs voru 73% viðskipta með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á milli einstaklinga, eða samtals 984 kaupsamningar af þeim 1.341 kaupsamningum sem gerðir voru á tímabilinu í heildina.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að 18% samninganna, eða samtals 237 samningar, voru þess eðlis að fyrirtæki seldi einstaklingi íbúð og 5% samninganna voru á þá leið að einstaklingur seldi fyrirtæki íbúð eða 63 samningar á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Þjóðskrá Íslands hefur birt.

Ofangreind gögn Þjóðskrárinnar, sem ná aftur til annars ársfjórðungs 2006, benda til þess að eðli markaðarunn nú sé svipaður því sem hann var fyrir hrun hvað mótaðila í viðskiptum varðar. Þannig voru 74% viðskipta með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á milli einstaklinga á 2,5 ára tímabilinu fyrir hrun. Er þetta mjög viðlíka stöðunni í dag. Þá voru 18% samninga þar sem fyrirtæki seldi einstaklingum og 5% þar sem einstaklingur seldi fyrirtæki. Þetta eru sömu hlutföll og mældust fyrir fyrsta ársfjórðung í ár.

Þegar þróunin frá upphafi árs 2006 er skoðuð eru það helst síðasti ársfjórðungur ársins 2008 og fyrstu tveir ársfjórðungar ársins 2009 sem skera sig úr þ.e. tímabil hrunsins sjálfs og mánuðirnir rétt á eftir. Þá hækkaði hlutfall þeirra viðskipta þar sem einstaklingur selur fyrirtæki umtalsvert og fór það upp í 12% á síðasta ársfjórðungi 2008 og síðan var það 10% á fyrstu tveim ársfjórðungum ársins 2010 en almennt hefur þetta hlutfall verið um 5% á tímabilinu frá 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×