Viðskipti innlent

Meniga hlut Vaxtarsprotann í ár

Fyrirtækið Meniga ehf. hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2013 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Fyrirtækið nær tífaldaði sölutekjur sínar milli áranna 2011 og 2012. Fyrirtækin Controlant, Nox Medical og Iceconsult fengu einnig viðurkenningar fyrir góðan vöxt.

Í tilkynningu segir að Vaxtarsprotinn sé viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Tilgangurinn er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Viggó Ásgeirssyni, Ásgeiri Ásgeirssyni og starfsmönnum Meniga Vaxtarsprotann 2013 að viðstöddum fulltrúum sprotafyrirtækja og stuðningsaðilum atvinnulífsins í Grasagarðinum í Laugardal við hátíðlega athöfn í morgun (sjá meðfylgjandi mynd).

Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2011 og 2012, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Meniga og Controlant viðurkenningu, en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Nox Medical og Iceconsult viðurkenningu.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.