Viðskipti innlent

HH skora á FMÍ að stöðva allar innheimtur á gengislánum

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) skora á Fjármálaeftirlitið (FMÍ) að stöðva allar innheimtur á gengistryggðum lánum þar til lánastofnanir geta sannað að lánin séu reiknuð með réttarhagsmuni skuldara að leiðarljósi.

Í tilkynningu segir að Hagsmunasamtök heimilanna hafa kannað úrtak endurútreikninga áður gegnistryggðra lána frá lánastofnunum og fyrirtækjum í slitameðferð. Ljóst er að endurútreikningar eru rangir í meirihluta tilfella þar eð brotið er á rétti skuldarans til seðlabankavaxta af ofgreiddum afborgunum. Munað getur töluverðum upphæðum ef ofgreiðslur áttu sér stað yfir langt tímabil.

Skuldarinn á rétt á svokölluðum seðlabankavöxtum af þeirri fjárhæð sem var umfram réttmæta afborgun frá þeim degi sem ofgreiðsla fór fram. Ekki er ásættanlegt að draga endurgreiðsluna einungis frá höfuðstól þar sem skuldarinn er þá hlunnfarinn um mismun á milli þeirra vaxta er greiddir voru af láninu og seðlabankavaxta sem falla eiga í hlut lántaka.

Sýslumönnum er góðfúslega bent á að aðfararbeiðnir sem byggðar eru á þeim endurútreikningum sem hér um ræðir, eru tilhæfulausar nema kröfuhafi geti sýnt fram á að endurreiknað hafi verið í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu... Jafnframt þarf að taka tillit til Hæstaréttardóma… um fullnaðargildi kvittana og bann við afturvirkum vaxtavöxtum.

Það verður að teljast nokkuð bíræfið af lánastofnunum að ganga enn og aftur á rétt skuldara, en reikna má með að fjármálastofnanir verði gerðar afturreka með útreikningana þar til þeir hafa verið rétt framkvæmdir. Nýverið gaf FME út tilmæli til lánastofnana um að rökstyðja/sanna lögmæti gengisbundina lánasamninga (sem í tilmælunum eru nefnd erlend lán).

Hagsmunasamtök heimilanna skora hér með á Fjármálaeftirlitið að ganga skrefinu lengra og stöðva allar innheimtur áður gengistryggðra lána þar til lánastofnanir geta sannað að lánin séu reiknuð með réttarhagsmuni skuldara að leiðarljósi. Svo augljós brot gegn skuldurum sem að ofan greinir taka af allan vafa um einbeittan brotavilja kröfuhafa að mati samtakanna. Löngu er tímabært að byrði sönnunar sé færð yfir á kröfuhafa í ljósi stórfelldrar misnotkunar á aðstöðumun gagnvart skuldurum, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×