Viðskipti innlent

Met í apríl: Ferðamönnum fjölgaði um 21% milli ára

Alls fóru 45.800 erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð í apríl sl., sem er 8.100 fleiri en þeir voru í apríl í fyrra. Nemur fjölgunin á milli ára rúmlega 21%, og er hér um fjölmennasta aprílmánuð frá upphafi að ræða hvað erlenda ferðamenn varðar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að því sé sama sagan uppi á teningnum og verið hefur, þar sem met er slegið mánuð eftir mánuð. Eru brottfarir erlendra ferðamanna komnar upp í 167.900 á fyrsta þriðjungi ársins, samanborið við 125.300 á sama tímabili í fyrra. Jafngildir þetta aukningu upp á 34% á milli ára og er greinilegt að íslenski ferðaþjónstugeirinn hefur náð miklum árangri í að laða fleiri ferðamenn hingað til lands á jaðartíma. Þetta má sjá í tölum Ferðamálastofu Íslands um brottfarir gesta frá landinu um.

Færri Íslendingar fara utan

Færri Íslendingar héldu erlendis í apríl sl. en í sama mánuði í fyrra. Þannig námu brottfarir Íslendinga úr landi um Leifsstöð 28.100 nú í apríl, en þær höfðu verið 28.900 talsins á sama tíma í fyrra. Nemur fækkunin á milli ára þar með tæpum 3%. Sé takið mið af fyrstu fjórum mánuðum ársins nema brottfarir Íslendinga um Leifsstöð um 99.600 samanborið við 100.000 í fyrra, og er því lítilsháttar fækkun á milli ára.

„Við teljum líklegt að þróunin á brottförum Íslendinga taki aðra stefnu á næstu mánuðum þannig að það fari að fjölga í hópi þeirra Íslendinga sem leggja land undir fót. Hér spilar eðlilega sú mikla styrking sem orðið hefur á gengi krónunnar, og þá að sama skapi kaupmætti landans á erlendri grundu, stóra rullu,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×