Viðskipti innlent

Hagsjá: Krónan styrktist um 3,5% í apríl

Krónan hélt áfram að styrkjast í apríl og stóð gengi krónunnar á móti evru í 153 kr. í lok mánaðarins. Krónan styrktist um 3,5% frá marslokum og hefur styrkst um 10,3% frá áramótum þegar hún stóð í um 167 kr.

Þetta kemur fram í Hagsjá riti hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að styrkingin var mun meira á móti dollaranum í apríl, eða um 6,7%. Síðan um áramót hefur krónan styrkst um 10,2% á móti dollaranum.

Styrking krónunnar er gott innlegg í baráttunni við verðbólguna en síðri tíðindi fyrir útflutningsgreinarnar.

Heildarvelta á millibankamarkaði í apríl var 9,6 milljarðar kr. eða 62 milljónir evra. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem veltan minnkar milli mánaða, en til samanburðar var veltan 23,4 milljarðar kr. í febrúar og 15,5 milljarðar kr. í mars. Um þriðjungur veltunnar átti sér stað á einum degi, föstudaginn 5. apríl, þegar 23 milljónir evra skiptu um hendur. Þann dag styrktist krónan um tæp 2%.

Stóru viðskiptabankarnir þrír, sem eru aðilar að millibankamarkaði á gjaldeyri, geta parað saman kaupendur og seljendur á gjaldeyri innanhúss og fara aðeins út á markaðinn ef ójafnvægi myndast innan síns viðskiptamannahóps. Minnkandi velta á gjaldeyrismarkaði síðustu mánuði þarf því ekki að vera merki þess að minni velta sé með gjaldeyri innanlands.

Seðlabanki Íslands greip ekki inn í markaðinn í mánuðinum. Seinustu inngrip voru 8. mars þegar krónan stóð í um 165 á móti evru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×