Viðskipti innlent

Landsbankinn færir kortatryggingar sínar frá VÍS til TM

Landsbankinn hefur í kjölfar útboðs gert samning við Tryggingamiðstöðina (TM) um kortatryggingar kreditkorta bankans og tók samningurinn gildi þann 1. maí. Frá og með þeim degi munu allar kortatryggingar færast yfir til TM frá VÍS, sem hefur séð um tryggingarnar undanfarin ár.

Á vefsíðu bankans segir að vátryggingarfjárhæðir sjúkratrygginga munu tvöfaldast fyrir allar tryggingar, að undanskildum grunn- og alhliða ferðatryggingum þar sem þær munu þrefaldast. Eins þurfa korthafar ekki lengur að greiða ferðina á ferðalögum erlendis með kortinu sínu til að vera tryggðir eins og áður var. Að öðru leyti verður vátryggingarvernd og bótafjárhæðir einstakra korta þær sömu og hafa verið.

Korthafar eru vinsamlega beðnir um að snúa sér eftirleiðis til TM í síma 515 2000 verði þeir fyrir tjóni eða hafi þeir spurningar um kortatryggingar bankans. Eins hafa korthafar aðgang að persónulegri þjónustu út um allt land en TM er með fjölmargar þjónustuskrifstofur um land allt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×