Viðskipti innlent

Hagsjá: Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í maí og að þar ráði mestu óvissan um myndun nýrrar ríkisstjórnar og hvað hún ætli sér í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu.

Í Hagsjá deildarinnar segir að eins og oft áður togast á rök fyrir bæði hækkun og lækkun vaxta. Það sem helst styður vaxtalækkun er að verðbólgan hefur hjaðnað töluvert á síðustu mánuðum og mælist nú 3,3%, sem er vel innan efri vikmarka verðbólgumarkmiðsins. Lægri verðbólga en óbreyttir vextir þýðir að öðru óbreyttu að raunstýrivextir hafa hækkað og aðhald peningastefnunnar því aukist á þann mælikvarða.

Þá hefur gengi krónunnar styrkst verulega frá áramótum sem boðar gott fyrir þróun verðbólgunnar á komandi mánuðum, þ.e.a.s. ef styrkingin gengur ekki jafnhart aftur

Það sem gæti valdið vaxtahækkun, og ef til vill meiri áhyggjum, er óvissa um stefnuna í ríkisfjármálum á nýju kjörtímabili. Þeir flokkar sem nú ræða saman um myndun ríkisstjórnar höfðu báðir uppi loforð sem að öðru óbreyttu gætu falið í sér töluverða tilslökun í ríkisfjármálum með tilheyrandi verðbólguhvetjandi áhrifum.

Verði fullar efndir á þeim loforðum sem snúa að skattalækkunum, skuldaniðurfellingum og kjaraleiðréttingum, er ljóst að sjálfstæð peningastefnunefnd yrði að bregðast hart við með auknu aðhaldi í peningastefnunni.

Peningastefnunefnd mun birta ákvörðun sína þann 15. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×