Viðskipti innlent

Nýr sjóður til að efla íslenska tónlist erlendis

Nýr sjóður sem hefur það að markmiði að styðja við útflutning tónlistar hefur tekið til starfa og nefnist hann Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar. Í sjóðinn verður hægt að sækja um ferðastyrki mánaðarlega og ársfjórðungslega verða veittir tveir styrkir sem nema 500 þúsund krónum og einn styrkur sem nemur einni milljón króna.

Í tilkynningu segir að í stjórn sjóðsins sitja þau Ragnhildur Gísladóttir formaður, Sigtryggur Baldursson, fyrir hönd ÚTÓN, og Kamilla Ingibergsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Iceland Airwaves. Varamenn eru þau Árni Heimir Ingólfsson, Tómas Young og Margrét Örnólfsdóttir.

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar starfar skv. reglum samþykktum af mennta- og menningarmálaráðherra þann 5. febrúar 2013. Hlutverk útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar er að styrkja íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands.

Með sjóðnum verður til aukin fjárhagsaðstoð til tónlistarfólks á tónleikaferðalögum, aukin aðstoð til tónlistarfólks við þróun verkefna, aukin tækifæri til að komast á erlendar tónlistarhátíðir og auknir möguleikar skapast á tengslamyndun.

Ísland er afar lítill markaður. Mikilvægt er að auðvelda íslensku tónlistarfólki að koma tónlist sinni á framfæri sem víðast. Sú reynsla, þekking og sambönd sem skapast hafa innan ÚTÓN verða nýtt til að aðstoða tónlistarfólk í viðleitni sinni til að ná inn á stærri markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×