Viðskipti innlent

Reuters: Hætta á einangrun Íslands föstu í gjaldeyrishöftum

Í ítarlegri greiningu á Reuters um niðurstöðu kosninganna á Íslandi segir að sigur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins feli í sér hættu á að Ísland einangrist og festist í gjaldeyrishöftunum til lengri tíma. Þetta sé vegna þess að þessir tveir flokkar hafi það á stefnuskrá sinni að hætta við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Í greiningunni er m.a. rætt um hugmyndir Framsóknarflokksins um afskriftir á krónueignum erlendra kröfuhafa í þrotabúum bankanna.  Slíkar hugmyndir gætu enn frekar dregið úr áhuga erlendra fjárfesta að koma til landsins og leitt til langvinnar og lagalega erfiðrar baráttu fyrir dómstólum. Eignaupptaka á þessum krónueignum myndi ýta enn frekar undir fjármagnsflótta frá landinu.

Reuters ræðir m.a. við Guðmund Inga Hauksson fyrrum útibústjóra hjá Landsbankanum sem nú rekur bílaþvottastöðvar í Reykjavík. Guðmundur segir að gjaldeyrishöftunum verði ekki aflétt, a.m.k ekki á næstu 5 eða 10 árum en mögulega eftir 20 eða 30 ár.

Fram kemur að Ísland skorti öflugan bakhjarl eins og Kýpur hefur, það er Seðlabanka Evrópu. Þess vegna þurfi smáir bankar landsins sem og ríkisstjórn þess að glíma á eigin vegum við erlenda fjárfesta.

Ásgeir Jónsson ráðgjafi hjá GAMMA segir að Ísland hafi nú staðið fyrir utan alþjóðlega fjármálamarkaði í fimm ár og að landið sé að einangrast hvað aðgang að þeim varðar.

Einnig er rætt við Þórólf Matthíasson prófessor hjá Háskóla Íslands sem segist eiga erfitt með að sjá aðra lausn á þessum vandmálum en að skipta um gjaldmiðil.

Þá er rætt við Jón Sigurðsson forstjóra Össurar sem segir að það sé einfalt að loka hagkerfi en mjög erfitt að opna það aftur. „Og það er engin raunhæf áætlun til um slíkt,“ segir Jón.

Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×