Viðskipti innlent

Vöruskiptin 7,5 milljörðum hagstæðari en í fyrra

Fyrstu þrjá mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir tæpa 156,3 milljarða króna en inn fyrir 130,6 milljarða króna. 25,6 milljarða króna afgangur var því á vöruskiptum við útlönd en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 18,2 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 7,5 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að í marsmánuði voru fluttar út vörur fyrir 50,9 milljarða króna og inn fyrir 41,6 milljarða króna. Vöruskiptin voru því hagstæð um 9,3 milljarða króna. Í mars 2012 voru vöruskiptin hagstæð um 5,1 milljarð króna á gengi hvors árs.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruútflutnings 0,6 milljörðum eða 0,4% minna á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 51,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,7% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 43,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 3,4% meira en á sama tíma árið áður.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2013 var verðmæti vöruinnflutnings 8 milljörðum eða 5,8% minna á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður, aðallega vegna minni innflutnings á skipum og flugvélum. Einnig minnkaði innflutningur á  hrá- og rekstrarvörum en á móti kom aukinn innflutningur fjárfestingavara og mat og drykkjarvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×