Viðskipti innlent

Verulega dró úr tapi Skipta hf. í fyrra

Tap á rekstri Skipta hf., eftir skatta á síðasta ári,  nam 3,4 milljörðum kr. samanborið við 10,6 milljarða kr. tap árið áður.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar um uppgjörið. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, án einskiptisliða, nam 8,1 milljarði kr. samanborið við 6,3 milljarða kr. árið áður.

Sala nam 28,9 milljörðum króna samanborið við 27,9 milljarða árið áður. Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 10,2% og eigið fé er 7,9 milljarðar króna.

Alls greiddi Skipti hf. 4,4 milljarða í afborganir og vexti árið 2012. Öll lán félagsins eru í skilum.

„Þetta uppgjör sýnir vel þann árangur sem hefur náðst í rekstri Skipta og dótturfélaga á undanförnum árum,“ segir Steinn Logi Björnsson, forstjóri Skipta í tilkynningunni.

„Gripið hefur verið til viðamikilla hagræðingaraðgerða og unnið á grundvelli áætlunar sem miðar að því að hámarka arðsemi rekstrarfélaganna. Með því hefur verðmæti Skipta verið aukið verulega sem auðveldar fjárhagslega endurskipulagningu til að leggja grunn að nýrri  langtímafjármagnsskipan Skipta. Eins og kom fram í tilkynningu Skipta til kauphallar hafa allir kröfuhafar félagsins samþykkt að gerast aðilar að tillögu Skipta að frjálsum samningum um  fjárhagslegri endurskipulagningu Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi og gerbreytir rekstrarumhverfi fyrirtækisins til framtíðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×