Viðskipti innlent

Væntingar íslenskra neytenda breytast lítið

Lítil breyting varð á væntingum íslenskra neytenda á efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar á milli mars og apríl síðastliðins. Þetta má ráða af Væntingavísistölu Capacent Gallup sem birt var nú í morgunsárið.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig lækkaði Væntingavísitalan um rúm 2 stig á framangreindu tímabili, og mælist nú um 87 stig, en hafði verið 89 stig í mars.

Í fréttatilkynningu Capacent er tekið fram að mælingin hafi verið framkvæmd í fyrri hluta aprílmánaðar, sem var þá fyrir lokasprettinn í nýafstaðinni kosningabaráttu fyrir alþingiskosningar. Kann að vera að vísitalan hefði hækkað ef könnunin hefði verið framkvæmd einhverjum dögum seinna þegar loforð stjórnmálaflokka spruttu fram eins og blóm að vori, sem ætti að öðru jöfnu að kynda undir væntingar landsmanna um bjartari framtíð.

Þrátt fyrir þessa lítilsháttar lækkun vísitölunnar nú í apríl frá fyrri mánuði er þetta þriðja hæsta gildi hennar frá því í apríl árið 2008. Jafnframt er ljóst að íslenskir neytendur eru talsvert bjartsýnni nú á efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar en þeir voru á sama tíma í fyrra. Í apríl í fyrra stóð væntingavísitalan í rúmu 71 stigi, sem er tæplega 16 stigum lægra en gildi vísitölunnar stóð nú í apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×