Handbolti

Sleggja frá Narcisse bjargaði Kiel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daniel Narcisse
Daniel Narcisse Nordicphotos/AFP
Kiel vann dramatískan 32-31 sigur á Veszprem í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Daniel Narcisse tryggði Kiel sætan sigur með marki undir lokin.

Gestirnir frá Ungverjalandi höfðu góð tök á leiknum fram í miðjan seinni hálfleik. Veszprem leiddi í hálfleik 16-15 og náðu góðri forystu í síðari hálfleik.

Um miðjan hálfleikinn leiddu Ungverjarnir 22-28 en þá skoruðu heimamenn sex mörk í röð. Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði en Narcisse skoraði sigurmarkið með bylmingsskoti sekúndum fyrir leikslok.

Stórskyttan Lazlo Nagy fór á kostum með Veszprem og skoraði ellefu mörk í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel en Aron Pálmarsson komst ekki á blað.

Liðin mætast í Ungverjalandi að viku liðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×