Viðskipti innlent

Gríðarleg eftirspurn eftir bréfum í TM

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tryggingamiðstöðin fer senn á markað.
Tryggingamiðstöðin fer senn á markað.
Hlutafjárútboði með bréf í Tryggingamiðstöðinni lauk klukkan fjögur í dag, en í útboðinu buðu Stoðir 28,7% af útgefnum hlutum í TM til sölu. Áður en útboðið með hlut TM fór fram gerðu seljendur ráð fyrir að söluandvirði, á hvern hlut yrði á bilinu 17,75-20,10 krónur, þannig að heildarsöluandvirðið yrði á bilinu 3,9-4,4 milljarðar króna. Markaðsvirði alls hlutafjár í TM miðað við fyrrgreint verðbil er á bilinu 13,5-15,3 milljarðar króna.

Samkvæmt heimildum Vísis var þátttaka í útboðinu umtalsvert meiri en í útboði Vátryggingafélags Íslands sem lauk á dögunum. Tíföld umframeftirspurn var eftir bréfum í VÍS, tilboð bárust fyrir 150 milljarða en ríflega 14 milljarða hlutur var í boði.

Sótt hefur verið um töku allra hlutabréfa í TM  til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Hafi Kauphöllin ekki samþykkt umsókn TM um töku hluta í félaginu til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar fyrir 7. maí næstkomandi þegar til stendur að afhenda þá hluti sem keyptir voru í útboðinu verður útboðið ógilt og allar áskriftir felldar niður.

Niðurstöður TM útboðsins verða kynntar opinberlega á föstudagsmorgun klukkan níu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×