Viðskipti innlent

HB Grandi og Valka sömdu um kaup á nýrri beinskurðarvél

Myndin var tekin við undirritun samningsins á bás Völku á sjávarútvegssýningunni í Brussel.
Myndin var tekin við undirritun samningsins á bás Völku á sjávarútvegssýningunni í Brussel.
HB Grandi og Valka undirrituðu á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðustu viku kaupsamning á nýrri röntgenstýrðri beinaskurðarvél en þetta er fyrsta vél sinnar tegundar í heiminum sem er ætluð til skurðar á þorskflökum. Vélin var sýnd í fyrsta skipti opinberlega á sýningunni.

Í tilkynningu segir að HB Grandi tók þátt í að þróa fyrstu beinaskurðarvélina með Völku og hefur sú vél verið í notkun í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík frá því í september í fyrra. Sú vél er notuð til að skera beingarð úr karfaflökum auk þess sem hnakkabitar eru skornir sjálfvirkt í vélinni.

Nýja vélin verður notuð til að skera beingarð úr þorskflökum og að skera flakið í bita eftir óskum kaupenda. HB Grandi hefur ákveðið að auka þorskvinnslu á Akranesi og mun  nýja vélin  stuðla að auknum afköstum og nýtingu í bitaskurði.  Fyrirtækin eru saman í þróunarverkefni sem gengur út á að bæta nýtinguna enn frekar með hallandi skurði en það verkefni er styrkt af AVS-sjóðnum og Tækniþróunarsjóði.

Þess má geta að  HB Grandi hlaut nýverið Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Valka hlaut Nýsköpunarverðlaunin sem veitt eru af Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóði og Íslandsstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×