Viðskipti innlent

Innistæða fyrir verulegri lækkun á innfluttum vörum

Greining Íslandsbanka segir að miðað við þróun krónunnar undanfarið virðist vera innstæða fyrir talsverðri viðbótarlækkun á innfluttum vörum og verði fróðlegt að fylgjast með verðþróun þeirra á komandi mánuðum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar. Í Morgunkorninu segir að óvenjulega mikil hækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni í mælingu Hagstofu er helsta skýring á því að vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% í apríl frá fyrri mánuði, þvert á spár um lækkun eða óbreytta vísitölu. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,13% milli mánaða í apríl. Þrátt fyrir nokkra hækkun VNV nú hjaðnar verðbólga töluvert í aprílmánuði, fer úr 3,9% niður í 3,3%.

Markaðsverð húsnæðis hækkaði í apríl um 1,8% á milli mánaða (0,23% áhrif í VNV). Þvílík hækkun milli mánaða hefur ekki sést á þessum lið síðan á þensluárinu mikla 2007. Verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæði hækkaði um 1,8%, en verð fjölbýla á höfuðborgarsvæðinu lækkaði hins vegar lítið eitt.

Á móti því vó hins vegar 8,6% hækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni. Sú hækkun kemur verulega á óvart, enda hefur svo mikil mánaðarhækkun ekki sést í tölum Hagstofu svo langt aftur sem þær ná, eða til síðustu aldamóta. Þá hækkaði greidd húsaleiga um 1,7% í apríl, sem er óvenju mikil hækkun og tengist væntanlega því að mikil hækkun VNV í febrúar kemur fram í verðtryggðum leigusamningum með töf.

Líkt og búast mátti við lækkaði verð á ýmsum innfluttum vörum í kjölfar verulegrar styrkingar krónu frá miðjum febrúarmánuði. Eldsneytisverð lækkaði til að mynda um 4% (-0,23% í VNV) og verð á nýjum bílum lækkaði um 2,2% (-0,12% í VNV). Þá má greina áhrif styrkingarinnar í öðrum vöruflokkum á borð við raftæki. Í heild lækkuðu innfluttar vörur í verði um 1,0% í apríl. Miðað við þróun krónunnar undanfarið virðist þó vera innstæða fyrir talsverðri viðbótarlækkun á innfluttum vörum og verður fróðlegt að fylgjast með verðþróun þeirra á komandi mánuðum., að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×