Viðskipti innlent

Tæplega 28 þúsund í alvarlegum vanskilum

Helga Arnardóttir skrifar
Það getur verið kúnst að láta enda ná saman.
Það getur verið kúnst að láta enda ná saman. Mynd/ Getty.
Tæplega tuttugu og áttaþúsund manns eru í alvarlegum vanskilum að því er fram kemur í nýjum tölum frá Credit Info. Vanskil einstaklinga hafa aldrei verið meiri en nú ef litið er aftur til ársins 2006  en heldur hefur dregið úr þeim hjá fyrirtækjum.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um stöðu vanskila hjá einstaklingum og fyrirtækjum frá Credit info.  Vanskilin sem skráð eru geta verið allt frá ógreiddum símreikningum, visaskuldum, meðlagsgreiðslum eða húsnæðislánum.

Tölurnar eru sláandi og sýna að vanskil einstaklinga hafa aldrei verið meiri. Fyrsta apríl síðastliðinn voru rúmlega 27600 manns  á vanskilaskrá.

Ef við lítum sjö ár aftur í tímann þá má sjá að rúmlega 16.400 manns voru á vanskilaskrá í janúar 2006 sem fóru svo yfir rúmlega 20.000 .í desember 2009. 

Fleiri karlmenn en konur eru í vanskilum. Af rúmlega 27600 einstaklingum í vanskilum eru rúmlega 17800 karlmenn í alvarlegum vanskilum og rúmlega 9.700 konur.  

Fjölmennasti hópurinn sem er á vanskilaskrá er á aldrinum 30-39 ára en það eru 7.300 manns. Þar næst á eftir kemur aldurshópurinn 40-49 ára með tæplega 6.800 á vanskilaskrá.  Rúmlega 5200 manns eru á vanskilaskrá á aldrinum 18-29. Fjöldi vanskila lækkar svo eftir hækkandi aldri. Þess má þó geta að tæplega 2.900 manns eru á vanskilaskrá á aldrinum 60-80 ára.

Þegar kemur að vanskilum fyrirtækja eða lögaðila þá er staðan ögn betri nú en áður. Í byrjun mánaðar voru rúmlega 6.700 á vanskilaskrá en flest voru vanskilin í júlí í fyrra eða tæplega 7.000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×