Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Eisenach unnu í kvöld mikilvægan sigur í toppbaráttunni á móti Bittenfeld og bættu um leið stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar.
Eisenach vann leikinn með sex mörkum, 33-27, eftir að hafa verið 15-10 yfir í hálfleik. Hannes Jón Jónsson átti flottan leik og skoraði níu mörk í kvöld en aðeins eitt marka hans komu af vítalínunni.
Eisenach er eftir leikinn með tveggja stiga forskot á Bittenfeld í 3. sæti deildarinnar en þrjú efstu liðin komast upp í úrvalsdeildina.
Árni Þór Sigtryggsson og félagar í Friesenheim gerðu 31-31 jafntefli á útivelli á móti HC Empor Rostock en Friesenheim-liðið var með tveggja stiga forskot þegar tvær mínútur voru eftir. Árni Þór skoraði þrjú mörk í leiknum.
Hannes með níu mörk í mikilvægum sigri
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
