Handbolti

Öruggt hjá Kiel í Rúmeníu

Alfreð og félagar fagna.
Alfreð og félagar fagna. fréttablaðið/getty
Evrópumeistarar Kiel komust upp að hlið MKB Veszprem á toppi B-riðils Meistaradeildarinnar í kvöld. Kiel vann þá útisigur, 25-28, gegn Constanta.

Sigur Kiel var öruggari en lokatölurnar gefa til kynna. Kiel leiddi með fimm mörkum í hálfleik, 11-16, og hafði öruggt forskot allan seinni hálfleikinn.

Leikmenn liðsins slökuðu fullmikið á klónni undir lokin og heimamenn náðu þá að laga markamismuninn.

Þetta var lokaleikur Kiel í riðlakeppninni en liðið er örugglega komið áfram í sextán liða úrslit. Veszprém á eftir að spila gegn Atletico Madrid í lokaleik sínum.

Filip Jicha var markahæstur í liði Kiel með sjö mörk. Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, leyfði þeim sem hafa verið minna að spila að spreyta sig í þessu skylduverkefni.

Hvorki Aron Pálmarsson né Guðjón Valur Sigurðsson komst á blað í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×