Handbolti

Fimm íslensk mörk þegar Kiel fór á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, komst á toppinn í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta með því að vinna sjö marka sigur á Füchse Berlin í kvöld, 40-33. Rhein-Neckar Löwen er einu stigi á eftir Kiel en lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar eiga leik inni og geta endurheimt toppsætið á morgun.

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel og Aron Pálmarsson var með tvö mörk. Rene Toft Hansen og Marko Vujin voru markahæstir hjá Kiel með fimm mörk hvor en Johannes Sellin skoraði sjö mörk fyrir Füchse Berlin.

Bob Hanning, stýrði liði Füchse Berlin í kvöld þar sem að þjálfarinn Dagur Sigurðsson liggur veikur heima. Þetta var annar leikurinn í röð sem Dagur missir af. Refirnir hafa aldrei unnið í Kiel og það breyttist ekki í kvöld.

Füchse Berlin komst í 4-2 í upphafi leiks en Kiel svaraði með 5-1 spretti og var með frumkvæðið eftir það. Aron Pálmarsson kom inn á 17. mínútu, var fljótur að komast á blað og skoraði alls tvö mörk í fyrri hálfleiknum sem endaði 22-18 fyrir Kiel.

Füchse skoraði fyrsta mark seinni hálfleiksins en svo kom góður sprettur hjá strákunum hans Alfreðs. Guðjón Valur kom Kiel síðan sex mörkum yfir, 27-21, með því að skora tvö mörk með stuttu millibili. Eftir það var Kiel með leikinn í öruggum höndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×