Viðskipti innlent

Sigmundur segir skuldaniðurfellingu mögulega fyrir árslok

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að skuldaniðurfelling hjá heimilum landsins sé möguleg fyrir árslok. Að vísu svo með þeim fyrirvara að búið verði að semja við erlenda kröfuhafa um málið fyrir þann tíma.

Þetta kemur fram í viðtali Reuters við Sigmund Davíð sem var tekið í Kirkenes í Noregi í dag. Í viðtalinu segir Sigmundur Davíð m.a. að hinir erlendu kröfuhafar séu opnir fyrir samningum um að þeir taki á sig afskriftir af kröfum sínum en slíkt er m.a. forsenda þess að til skuldaniðurfellingar komi hjá íslenskum heimilum.

Reuters greinir einnig frá varaáætlun forsætisráðherrans í málinu, hinum margumtalaða leiðréttingarsjóð sem fjallað er um í stjórnarsáttmálanum.

Fram kemur í fréttinni að málið snúist um afskriftir á því sem kallað hefur verið snjóhengjan hér heima, það er krónueignir kröfuhafanna upp á 3,8 milljarða dollara eða um 460 milljarða kr. Þessi upphæð sé á pari við heildargjaldeyrisforða Íslands.

Í viðtalinu kemur einnig fram hjá Sigmundi Davíð að aflétting gjaldeyrishaftanna haldist í hendur við samninga við kröfuhafana um snjóhengjuna. Ekki sé hægt að aflétta höftunum án þeirra samninga.

Semja þarf við vogunarsjóði

Fram kemur að þessar krónueignir séu nú komnar að mestu í eigu vogunarsjóða á borð við Burlington Loan management og CCP Credit Acquisition. Sigmundur Davíð fullyrðir í viðtalinu að þessir sjóðir hafi allir keypt kröfur á Ísland með þá vitneskju fyrirfram að nauðsynlegt yrði að gefa afslátt af þeim.

Sigmundur Davíð vildi ekki gefa upp hve mikið hinir erlendu kröfuhafar þyrftu að afskrifa af kröfum sínum. Hann vitnaði hinsvegar í ummæli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að þeir þyrftu að gefa eftir 75% af kröfum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×