Viðskipti innlent

Afhjúpandi málsgögn í innherjasvikamáli

Dómur Héraðsdóms Reykjaness frá því í gær, þegar Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis var dæmdur í eins árs óskilorðsbundið fangelsi fyrir innherjasvik, er aðeins annar dómurinn í Íslandsögunni þar sem sakfellt er fyrir innherjarsvik, en í febrúar í fyrra var Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi.

Friðfinnur hefur þegar áfrýjað dómnum, og afar ósáttur við niðurstöðuna, að því er Reimar Pétursson, lögmaður hans, tjáði fréttastofu í dag. Friðfinnur var dæmdur fyrir að selja hlutabréf í Glitni fyrir tæplega 20 milljónir frá mars mánuði og fram í september 2008, á sama tíma og hann bjó yfir innherjaupplýsingum, að mati dómsins.

Í dómnum frá í gær kemur fram að staða Glitnis strax á vormánuðum 2008 hafi verið grafalvarleg, og er meðal annars vitnað til þess að starfsmenn bankans hafi vilja að leitað yrði til Seðlabanka Íslands um aðstoð þá þegar.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness, er meðal annars fjallað um tölvupóst frá Erlendi Magnússyni, starfsmanni Glitnis, til Lárusar Welding forstjóra, frá því í mars 2008, að ef ekki yrði leitað til Seðlbanka Íslands um aðstoð, á þessum tíma, þá yrðu hlutabréf bankans verðlaus um páskana, það er aðeins nokkrum vikum síðar.

Eins og frægt er, leituðu starfsmenn Glitnis til Seðlabankans í lok september 2008, og tilkynnti seðlabankinn þá um yfirtöku ríkisins á 75 prósent hlutafjár Glitnis, sem hluta af björgun. Nokkrum vikum síðar var allt bankakerfið hrunið, en marg bendir þó til þess, ekki síst þær upplýsingar sem vitnað er til í dómnum frá því í gær, að bankinn hafi staðið afar höllum fæti strax í upphafi ársins 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×