Handbolti

Flensburg vann Ljónin hans Guðmundar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Gústafsson í leiknum í kvöld.
Ólafur Gústafsson í leiknum í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Flensburg-Handewitt kom í veg fyrir að Rhein-Neckar Löwen tækist að jafna Kiel að stigum á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Flensburg vann þá þriggja markaheimasigur á lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen, 30-27. Kiel tapaði óvænt fyrir FA Göppingen fyrr í kvöld en Ljónunum mistókst að nýta sér það. Flensburg hefur nú unnið alla heimaleiki sína í vetur.

Rhein-Neckar Löwen náði nokkrum sinnum þriggja stiga forskoti í fyrri hálfleiknum þar á meðal 13-10 en staðan var 16-16 í hálfleik. Flensburg var síðan skrefinu á undan allan seinni hálfleikinn.

Ólafur Gústafsson innsiglaði sigur Flensburg með því að skora 30. og síðasta markið en hann var með tvö mörk í kvöld. Alexander Petersson skoraði sex mörk fyrir Löwen og var annar af tveimur markahæstu leikmönnum liðsins en Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk.

Flensburg var að vinna sinn þriðja deildarsigur í röð og jafnframt sinn þrettánda sigur í síðustu fjórtán leikjum. Liðið er nú aðeins tveimur stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen og á auk þess leik inni.

Rhein-Neckar Löwen hefur aftur á móti aðeins náð í eitt stig út úr síðustu þremur deildarleikjum sínum og er að gefa mikið eftir en liðið hefur verið í toppsætinu stærsta hluta tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×