Viðskipti innlent

"Það felst ranglæti í því að fólk borgar mismunandi fasteignagjöld"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Á föstudaginn var greint frá því að skipulagsstjóri Hafnarfjarðar hefði staðið í langvinnu stríði við byggingarstjóra vegna vanefnda og ókláraðra verka. Algengt væri að fólk og fyrirtæki flyttu inn í hús sem ekki hefðu farið í gegnum öryggis- og lokaúttektir.

Ólafur Ingi Tómasson, varabæjarfulltrúi, sem situr í Skipulags- og byggingaráði Hafnarfjarðar, telur að bærinn hafi orðið af hundruðum milljóna vegna rangrar skráningar fasteignagjalda og segir þetta skipta gríðarlegu máli fyrir skuldugt sveitarfélag.

Í ársreikningi kemur fram að átak vegna rangrar skráningar fasteigna hafi skilað bæjarfélaginu um hundrað milljónum á síðasta ári, en Ólafur telur þetta mjög varlega áætlað. Dæmi séu um að iðnaðarhúsnæði upp á jafnvel fleiri þúsund fermetra hafi verið skráð á byggingar- eða matsstig til fjölda ára, þótt húsin hafi verið í fullri notkun. Einnig séu dæmi um íbúðarhúsnæði sem ekki sé greitt af.

„Það eru til dæmi um fólk sem býr hlið við hlið í nýlegu húsnæði. Annar aðilinn borgar full fasteignagjöld en nágranninn helmingi lægri vegna þess að hús nágrannans er skráð sem fokhelt,“ segir Ólafur.

Að hans sögn var tillaga um aukið utanumhald ekki samþykkt og umfang vandamálsins því á huldu. „Það felst ranglæti í því að fólk borgar mismunandi fasteignagjöld. Þau eru há og það eiga allir að sitja við sama borð í greiðslu opinberra gjalda en því miður hefur eftirlit með þessum þætti bara brugðist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×