Handbolti

AGK búið að finna eftirmann Guðjóns Vals

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fredrik Petersen.
Fredrik Petersen. Mynd/AFP
Danska stórliðið AG Kaupmannahöfn hefur fundið eftirmann Guðjón Vals Sigurðssonar sem mun yfirgefa félagið í vor. AG hefur samið við sænska landsliðsmanninn Fredrik Petersen sem er einn besti vinstri hornamaður í heimi.

Fredrik Petersen lék með sænska landsliðinu á Evrópumótinu í Serbíu en hann kemur frá danska félaginu Bjerringbro-Silkeborg þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil. Petersen er 29 ára gamall og er uppalinn hjá Ystad í Svíþjóð.

Petersen þekkir vel til nokkurra leikmanna AG því hann spilaði á sínum tíma með Snorra Steini Guðjónssyni og Mikkel Hansen hjá danska félaginu GOG Svendborg TGI.

Petersen hefur um nokkurt skeið verið eftirsóttur meðal bestu félagsliða heims þar á meðal liðum í þýsku úrvalsdeildinni og á Spáni. Svíinn hefur ekki viljað fara frá Danmörku þar sem hann hefur kunnað einstaklega vel við sig þar.

„AG er óskaklúbburinn minn. Ég er kominn í stærsta liðið á Skandinavíu og í lið sem er með tvo heimsklassaleikmenn í hverri stöðu. Ég vil verða í toppliði í Evrópu og spila um stóru titlana. Það er ekki hægt að finna betra félag í Danmörku eða annarsstaðar í Evrópu," sagði Fredrik Petersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×