Handbolti

Kiel tapaði í fyrsta skipti í þrjú ár á heimavelli

SÁP skrifar
Ótrúlegur atburður átti sér stað í þýska handboltanum í dag þegar Kiel tapaði á heimavelli, 29-25, fyrir Melsungen en liðið hefur ekki tapað leik í deildinni í eitt og hálft ár og töpuðu síðast á heimavelli í deildinni í september árið 2009.

Fyrir leikinn í dag hafði liðið ekki tapað í deildinni í 51 leik og teljast þetta ótrúleg tíðindi í handboltaheiminum. Staðan var 16-14 fyrir Kiel í hálfleik og héldu margir að liðið myndi rúlla yfir gestina í þeim síðari en svo var ekki.

Markmaður Melsungen var stórkostlegur í leiknum og varði 23 skot. Guðjón Valur Sigurðsson gerði fjögur mörk fyrir Kiel en Aron Pálmarson var frá vegna meiðsla og lék því ekki.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel. Á síðustu leiktíð fór liðið til að mynda í gegnum tímabilið án þess að tapa einum einasta leik og hefur verið alveg óstöðvandi að undanförnu.

Kiel er nú í öðru sæti deildarinnar á eftir Rhein-Neckar Löwen en Melsungen í því áttunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×