Bakþankar

Djákninn í Moody"s

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Íslendingar fá flestir mikinn heimalningshroll þegar útlendingar spyrja þá um álfa, tröll og drauga. Það eru kannski ekki svo undarleg viðbrögð. Menn vilja ekki líta út fyrir að vera svo skyni skroppnir að hafa ekki séð í gegnum blöffið sem notað var á börnin svo þau væru ekki að þvælast úti að næturþeli og héldu sig frá hættulegum klettum og giljum. Nútímamaðurinn vill líka vera frjáls í stað þess að leggja lund sína og líf undir vætti sem láta ekki að stjórn.

Meira að segja hið máttuga tungl sem hífir upp heilu höfin telst ekki trúanlegur áhrifavaldur á lund manna lengur. Hins vegar var það alkunna á mínum bernskuárum að vart væri orði við suma komandi þegar máni var fullur og svo uppi á Ægi typpið að hann virtist ætla að æða yfir bryggjuna.

Nútímamaðurinn er búinn að afneita þessu öllu saman. En það væri synd að segja að hann væri orðinn svo þroskaður að ekki væri hægt að stjórna lund hans og hegðun með nýrri og endurbættri hjátrú.

Nýju vættirnar eru bæði staðbundnar og alþjóðlegar. Hér á Spáni hefur hin svokallaða áhættufrænka, prima de riesgo, lundarfar manna í hendi sér. Til að gefa henni vísindalegan blæ er hún kölluð áhættuálag. Hún virkar eins og máninn og Ægir, það er að segja ef hún er með hýrri há lyppast Spánverjar niður og verða svo nískir að þeir tíma varla að kasta kveðju hver á annan. Í stað fregna um flóð og fjöru hefjast fréttatímar hér syðra með nýjustu fréttum af geðsveiflum áhættufrænkunnar.

Hún er ekki allsráðandi því hin ítalskættaða vá Draghi getur haft áhrif á þessar nýju vættir ef hún er úrill. Æðsti strumpurinn í þessu ævintýri er hins vegar Lundarfari sjálfur, eða Moody"s eins og hann er kallaður á frummálinu. Þeir sem lækka í áliti hjá honum bera ekki barr sitt lengi á eftir. Hann er svo máttugur að hann hefur Draghi, áhættufrænku og ömmu dreka í vasanum.

En hver er tilgangurinn með þessum draugagangi? Skýringuna má til dæmis sjá í ljósi viðburða hér á Spáni. Nú er verið að henda fólki á götuna sem ekkert hefur aflögu lengur fyrir bankann, skera niður í öllum geirum en dæla fé fólksins í ónýta banka svo Lundarfari verði ekki reiður. Þetta væri náttúrulega ekki hægt án þessarar nýju hjátrúar sem nútímamaðurinn gengst við alveg kinnroðalaust.






×