Viðskipti innlent

Ágæt arðsemi hjá Arion banka

MÞL skrifar
Höskuldur H. Ólafsson
Höskuldur H. Ólafsson
Arion banki hagnaðist um 3,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi ársins. Bankinn birti uppgjör sitt fyrir fjórðunginn í gær. Uppsafnaður hagnaður fyrstu níu mánuði ársins er þar með 14,5 milljarðar en til samanburðar var hagnaðurinn 13,6 milljarðar á sama tímabili í fyrra.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningu að afkoma fyrstu níu mánaða ársins sé vel viðunandi og í samræmi við áætlanir bankans.

Á fyrstu níu mánuðum ársins voru hreinar vaxtatekjur bankans 20,1 milljarður en voru 16,8 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Aukningin er einkum tilkomin þar sem lánasafn bankans stækkaði við kaup á íbúðalánasafni Kaupþings.

Hreinar þjónustutekjur voru hins vegar 8,1 milljarður og jukust um 6% milli ára. Rekstrartekjur námu því alls 34,4 milljörðum. Rekstrarkostnaður var aftur á móti 16,9 milljarðar og jókst um 7%.

Sé litið á kennitölur var arðsemi eiginfjár 15,9% á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 17,6% í fyrra. Arðsemi af reglulegri starfsemi var 11,9% en var 11,3% á sama tímabili í fyrra.

Heildareignir Arion banka námu 876,2 milljörðum í lok september og var eiginfjárhlutfall hans 22,5%. Þá var lausafjárhlutfall 31%.

Arion banki er að 87% í eigu kröfuhafa Kaupþings og að 13% í eigu íslenska ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×