Fastir pennar

Lög lygum líkust

Pawel Bartoszek skrifar
Í frumvarpi að lögum um fjölmiðla sem nú liggur fyrir þinginu er lagt til að útlendingar utan EES megi ekki vera ábyrgðarmenn fjölmiðla. Einnig er reynt, með villandi vísunum í erlend fordæmi, að rökstyðja bann við birtingu skoðanakannana á ákveðnum tíma fyrir kosningar. Þetta frumvarp má ekki verða að lögum.

Í greinargerð með frumvarpinu er eftirfarandi haldið fram: „Ísland sker sig úr í hópi nágrannaríkja sinna að því leyti að hér á landi er ekki kveðið á um í lögum að setja skuli nánari reglur um umfjöllun fjölmiðla um framboð í aðdraganda kosninga." Út frá þessu er ráðist í það verk að banna birtingu skoðanakannana daginn fyrir kosningar. Það mætti því skilja það þannig að slík bönn væru alþekkt í löndunum í kringum okkur. Þetta er í besta falli ömurlega villandi málflutningur þótt sterkari orð ættu vel við. Í bók eftir Christinu Holtz-Bacha: „Opinion Polls and the Media: Reflecting and Shaping Public Opinion", sem kom út fyrir viku, kemur fram að eftirfarandi ríki setja ekki skorður á birtingu skoðanakannanna fyrir kosningar: Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Bretland, Bandaríkin, Írland, Holland, Þýskaland, Eistland og Lettland. Hvað eru eiginlega „nágrannaríki" Íslands, ef þessi lönd eru það ekki? Málið er þetta: Með banni við birtingu skoðanakannana mun Ísland einmitt skera sig úr í hópi nágrannaríkja sinna.

Af sama villumeiði eru tilvitnanir í skýrslu ÖSE um Alþingiskosningarnar 2009. Í greinargerð segir: „Enn fremur er með greininni brugðist við athugasemdum til íslenskra yfirvalda í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um framkvæmd kosninga til Alþingis árið 2009. Þar var m.a. varpað fram þeirri spurningu hvort ekki væri ástæða til að huga að setningu reglna í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun í aðdraganda kosninga hér á landi." Það er rétt að ÖSE lagði til styrkingu reglna um fjölmiðlaumfjöllun. ÖSE lagði til ýmsa hluti (t.d. frjálsan auglýsingatíma í sjónvarpi og að kosningaauglýsingar yrðu sérstaklega auðkenndar) en nefnir skoðanakannanabann ekki. Hér er ráðuneytið því að villa fyrir um þinginu með því að vísa í heimild og treysta því að þingmenn nenni ekki að glugga í hana sjálfir. Frumvarpið gerir nefnilega ekkert af því sem ÖSE leggur til, en leggur hins vegar til tálmanir sem stofnunin nefndi ekki stöku orði.

Það verður raunar ekki annað séð en að þetta bann sem lagt er til sé klárt stjórnarskrárbrot. Við skulum rifja það upp að stjórnarskráin heimilar skorður á tjáningarfrelsi í einungis sex tilfellum: í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra. Er erfitt að sjá undir hverja af þessum sex undantekningum bann við birtingu skoðanakannana ætti að falla undir. Greinargerðin með frumvarpinu telur samt að frumvarpið standist stjórnarskrá og nefnir það „að í Bretlandi og Noregi er bannað að birta í hljóðvarpi og sjónvarpi auglýsingar frá stjórnmálahreyfingum sem greitt er fyrir birtingu á." Þó þetta kunni að vera efnislega rétt, ólíkt mörgu öðru í greinargerðinni, geta allir dæmt um það hve sterk rök það eru fyrir því að það megi (og eigi) banna einhvern hlut, að einhverjir allt aðrir hlutir séu bannaðir í öðrum löndum.

Aðför að tjáningarfrelsi útlendingaEn þær skoðana- og upplýsingatálmanir sem rökstuddar eru með lygnum tilvísunum í erlend fordæmi eru ekki það eina ömurlega í þessu vonda frumvarpi. Í óskiljanlegri illkvittni er þar lagt til að í einni grein frumvarpsins verði að finna orðin „Ábyrgðarmaður fjölmiðlaveitu skal vera ríkisborgari í EES-ríki." Það er utan nokkurs skilnings hvernig það geti verið réttlætanlegt að veitast að atvinnu- og tjáningarfrelsi þeirra útlendinga frá löndum utan EES sem hér dvelja löglega. Það á að banna þeim að reka og ábyrgjast (jafnvel eigin) fjölmiðla. Af hverju mega Bandaríkjamenn eða Taílendingar ekki ritstýra blaði öðruvísi en að einhver Íslendingur þurfi að ábyrgjast það, eins og um einhvern æfingarakstur væri að ræða? Þetta er aðför að stjórnarskrá, alþjóðlegum sáttmálum og heilbrigðri skynsemi. Menn verða að stoppa þennan ófögnuð. Og síðan þarf ráðherra að útskýra hvað fyrir henni vakti að leggja nokkuð slíkt til.






×