Handbolti

Engin aðgerð og Alexander spilar innan fjögurra vikna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Berlín skrifar
Alexander Petersson ætti að geta verið með í næstu verkefnum landsliðsins.
Alexander Petersson ætti að geta verið með í næstu verkefnum landsliðsins. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Þrátt fyrir að Alexander Petersson sé nú að glíma við þrálát og erfið meiðsli í öxl eru forráðamenn þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlin vongóðir um að hann muni spila með liðinu á ný innan fjögurra vikna. Alexander hefur ekki kastað handbolta síðan í leik Íslands og Slóveníu á EM í handbolta í síðasta mánuði.

„Það er alveg ljóst að Alexander mun spila með Füchse Berlin áður en tímabilinu lýkur," sagði framkvæmdastjórinn Bob Hanning í samtali við Fréttablaðið eftir leik liðsins gegn Magdeburg í Berlín í vikunni. „Við gerum ráð fyrir því að hann komi aftur inn í liðið á næstu fjórum vikum."

Alexander er með sýkingu í sinum í öxlinni sem og óeðlilegan beinvöxt. Læknum hefur ekki borið saman um hvort laga þurfi það með aðgerð en þeir sem Füchse Berlin hefur rætt við fullyrða að hann þurfi ekki aðgerð.

„Það er álit okkar læknis sem og virts sérfræðings frá Bonn sem við leituðum til. Öxlin er orðin betri hjá honum og hann mun geta spilað á ný án þess að fara í aðgerð," sagði Hanning.

Alexander sjálfur sagði við Fréttablaðið í viðtali sem birtist síðastliðinn fimmtudag að þar að auki væri verið að ráðfæra sig við lækna Flensburg, hans gamla félags, sem og lækna Rhein-Neckar Löwen sem hann gengur til liðs við í sumar. En Hanning stendur fast á því að hann þurfi ekki aðgerð.

„Það er niðurstaða okkar og við erum auðvitað ánægðir með það. Við erum þess mjög vongóðir að hann geti spilað fljótlega með okkur á ný."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×