Bakþankar

Um hvað eru hagfræðingar sammála?

Magnús Þ. Lúðvíksson skrifar
Frá bankahruni hafa hagfræðingar verið nokkuð í sviðsljósinu. Stéttin hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki varað við ósköpunum en á sama tíma hefur verið leitað til hennar til að skýra hvað gekk hér á. Þá hefur hún verið fyrirferðarmikil í umræðu um nokkur helstu hitamál samtímans svo sem gjaldmiðilinn, verðtrygginguna og Icesave-málið. Í þessum málum og fleiri hafa hagfræðingar viðrað fjölbreyttar skoðanir og virðist sú skoðun hafa náð fótfestu víða að stéttin sé ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut.

Það er miður. Ekki vegna þess að hagfræðingar séu sammála um alla hluti, það eru þeir ekki. Það er miður vegna þess að þeir hlutir sem þó ríkir almenn sátt um eru síður meðteknir af almenningi. Að sumu leyti geta hagfræðingar sjálfum sér um kennt. Sumir eru gjarnir á að tjá sig um alla hluti, hvort sem þeir hafa sérstakt vit á þeim eða ekki. Aðrir eru latir við að setja nauðsynlega fyrirvara við málflutning sinn þrátt fyrir að óvissa sé oft mikil í hagrannsóknum. Þess vegna er gagnlegt að aðskilja það sem almenn sátt ríkir um og hitt sem er umdeilt.

Tökum dæmi um nokkur atriði sem eru tiltölulega óumdeild meðal hagfræðinga samkvæmt könnunum. 1) Tollar og innflutningshöft minnka yfirleitt hagsæld. 2) Draga ætti stórlega úr niðurgreiðslum til landbúnaðar á Vesturlöndum. Þetta mætti segja þeim kynslóðum þingmanna sem staðið hafa vörð um rándýrt landbúnaðarkerfið á Íslandi. 3) Hið opinbera ætti frekar að safna afgangi af fjárlögum þegar hagkerfinu vegnar vel og skila halla þegar því vegnar illa en að reyna að koma út á núlli á hverju ári. 4) Viðvarandi fjárlagahallar skaða hagkerfið. 5) Skattalækkanir og eða aukin ríkisútgjöld örva hagkerfið þegar atvinnuleysi er mikið. Sú sorgarsaga sem er íslensk ríkisfjármálastjórn síðustu áratugi bendir til þess að þessi atriði hafi sjaldnast verið stjórnmálamönnum efst í huga. 6) Sé sett þak á leiguverð íbúða dregur það úr fjölda og gæðum íbúða til leigu. 7) Það er skynsamlegra að reyna að draga úr mengun með mengunarsköttum eða sölu -kvóta fremur en að sett sé þak á leyfilega mengun. Þessar staðreyndir eiga reyndar miklu víðar við en vilja hins vegar mjög oft gleymast í opinberri umræðu.

Ríkti almenn sátt um til dæmis þessi atriði meðal almennings myndi skynsamlegri hagstjórn og stefnumótun fylgja í kjölfarið. Sem myndi svo aftur bæta lífskjör landsmanna. Með það í huga má velta fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að breyta námsskrá framhaldsskóla þannig að eins og einn kúrs í hagfræði yrði skylda þar sem tiltölulega óumdeildar niðurstöður yrðu kynntar.






×