Handbolti

Guðjón Valur: Enginn úti að aka í þessu móti

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði alls 41 mark á Evrópumótinu í Serbíu og hér er eitt þeirra í uppsiglingu.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði alls 41 mark á Evrópumótinu í Serbíu og hér er eitt þeirra í uppsiglingu. Mynd/Vilhelm
„Það hefði verið mjög gaman að vinna. Við vorum að spila frábærlega og ég hélt við værum með þá. Þeir eru bara með svo mikið stórskotalið að það er enginn hægðarleikur að klára þá," sagði landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson eftir lokaleik Íslands á EM sem endaði með jafntefli gegn Frökkum.

„Þetta hefur verið svolítið skrítið mót. Ég var sáttur við Króataleikinn en ekki úrslitin. Var ósáttur við Noregsleikinn en sáttur við úrslitin og Slóveníuleikurinn var ekki nógu góður.

Ungverjaleikurinn frábær og Spánverjarnir voru of sterkir. Mér finnst við vera að gera nokkuð vel úr því sem höfum," sagði Guðjón Valur.

Liðið var án Ólafs Stefánssonar og Snorra Steins Guðjónssonar í Serbíu og svo var Alexander Petersson meiddur og tók vart þátt. Ingimundur Ingimundarson var einnig meiddur og lék takmarkað.

„Strákarnir sem hafa komið inn hafa staðið sig mjög vel. Svo sér maður samt þessa skrokka sem eru að koma inn hjá hinum þjóðunum og maður hugsar bara hvað sé eiginlega verið að gefa þeim að borða. Við erum kannski að lenda aðeins á eftir þar. Ég er gríðarlega ánægður með hvernig Bjöggi og vörnin rifu sig upp þó svo það vanti Ingimund og Alexander," sagði Guðjón.

„Sóknin var mjög góð allt mótið þó svo okkur hafi vantað lykilmenn. Rúnar hefur komið gríðarskemmtilega inn hjá okkur. Kári er sterkur og Ásgeir að axla meiri ábyrgð. Lykilmenn líka að standa sig vel. Það er ekki hægt að segja um neinn að hann hafi verið úti að aka í þessu móti. Flest var á uppleið í þessu móti og við erum nokkuð sáttir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×