Handbolti

Tæknimistökin verða okkur að falli

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Kári Kristjánsson átti sinn besta leik á EM í Serbíu á móti Spánverjum í gær. Hann skoraði þrjú mörk og fiskaði fjögur víti.
Kári Kristjánsson átti sinn besta leik á EM í Serbíu á móti Spánverjum í gær. Hann skoraði þrjú mörk og fiskaði fjögur víti. Mynd/Vilhelm
Kári Kristján Kristjánsson átti magnaðan leik gegn Spánverjum í gær. Hann kom af bekknum, skoraði þrjú mörk og fiskaði ein fjögur víti. Hann var þess utan duglegur að opna fyrir félaga sína enda enginn hægðarleikur fyrir Spánverjana að komast í kringum „Heimaklett" eins og Eyjamaðurinn þrekni er stundum kallaður.

„Það er gott fyrir mig að lenda í svona vinnu eins og í dag. Þeir eru stórir og ég er stór. Ég næ að taka mér stöðu. Mér fannst það takast mjög vel hjá mér allan leikinn að opna vörnina hjá þeim," sagði Kári en hann var alls ekki nógu hress með nýtinguna hjá íslenska liðinu í leiknum í gær.

„Á móti svona liði þurfum við að klára þessi færi. Við erum að fara með helvíti mikið af færum og tæknifeilarnir verða okkur að falli svona heilt yfir á mótinu. Við fáum frákast og föttum ekki að drippla. Förum báðir í frákast og náum engum fráköstum. Misskilningur á milli manna og allir þessir feilar verða okkur að falli í þessum leik. Það er rosalega svekkjandi."

Kári segir að ef íslenska liðið ætli að geta keppt við þau bestu í dag verði liðið að fækka þessum mistökin.

„Litlu atriðin eru svo ofboðslega dýr og við megum ekki vera svona mistækir. Heilt yfir fannst mér við samt spila vel. Auðvitað vorum við daufir fyrsta korterið og það er andskoti dapurt að mæta ekki betur tilbúnir til leiks. Það bara má ekki gegn þessu liði," sagði Kári og bætti við:

„Við spiluðum lengi vel og ef við hefðum ekki verið svona mistækir hefðum við getað fengið eitthvað úr þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×