Viðskipti innlent

Segja að ríkisstjórnin eigi eftir að uppfylla fjölmörg atriði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilmundur Jósefsson er formaður Samtaka atvinnulífsins.
Vilmundur Jósefsson er formaður Samtaka atvinnulífsins.
Samtök atvinnulífsins segja að 2/3 hluti þeirra atriða sem ríkisstjórnin hafi lofað að hrinda í framkvæmd við undirritun kjarasamninga hafi ekki náð fram að ganga. Alls hafi 24 mál af 36 ekki gengið eftir, 7 atriði hafi gengið eftir eins og talað var um og í fimm atriðum séu mál enn í gangi og gæti hugsanlega lokið farsællega. Þetta kemur fram í bréfi sem Samtök atvinnulífins rituðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í dag. Samtök atvinnulífsins segja afdrifaríkast að fjárfestingar í atvinnulífi og opinberar framkvæmdir hafi ekki aukist eins og lagt hafi verið upp með.

Samtök atvinnulífsins segja að samstarf ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins sé afar mikilvægt til þess að stuðla að farsælum framgangi efnahags- og atvinnumála. Því miður hafi ríkisstjórnin ekki tekið þetta samstarf alvarlega svo sem bæði megi merkja af vanefndum á Stöðugleikasáttmálanum frá júní 2009 og yfirlýsingu vegna samninganna 5. maí síðastliðinn.

Samtök atvinnulífsins telja tilgangslaust að óska eftir endurnýjuðum loforðum ríkisstjórnarinnar vegna mála sem ekki hafa gengið fram í samræmi við yfirlýsingu hennar. Nú verði verkin að tala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×