Handbolti

Iðjuleysi myndi gera út af við mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Berlín skrifar
Björgvin Páll lætur fara vel um sig í íbúð hans og eiginkonunnar Karenar Einarsdóttur í Magdeburg, þar sem Fréttablaðið ræddi við hann á dögunum.fréttablaðiði/E. Stefán
Björgvin Páll lætur fara vel um sig í íbúð hans og eiginkonunnar Karenar Einarsdóttur í Magdeburg, þar sem Fréttablaðið ræddi við hann á dögunum.fréttablaðiði/E. Stefán
Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, stendur í ströngu þessa dagana. Hann leikur með Magdeburg í Þýskalandi þar sem hann er í harðri samkeppni um mínútur inni á vellinum og í janúar fékk hann í fyrsta sinn á ferlinum að kynnast alvöru mótlæti með íslenska landsliðinu.

Utan handboltans rekur hann íslenskt fyrirtæki heima úr stofunni sinni heima í Magdeburg en þar settist Fréttablaðið niður með honum á dögunum.

Ætla að verða númer eittHollendingurinn Gert Eijlers er hinn markvörðurinn í liði Magdeburg og virðist fá oftar tækifærið í byrjunarliðinu þó svo að Björgvin fái vitanlega sína leiki. Hann minnti til að mynda vel á sig í leik Magdeburg og Nexe Nasice í EHF-bikarkeppninni á laugardaginn. Þá hélt hann sínum mönnum inni í leiknum með frábærri frammistöðu og með því að verja lokaskot Króatanna í leiknum sá hann fyrir því að liðið gat tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum.

„Þetta er nýtt fyrir mér en þetta er eitthvað sem ég átti von á," segir Björgvin um samkeppnina við Eijlers en viðtalið var tekið á fimmtudaginn síðastliðinn, fyrir leikinn í Króatíu.

„Eftir fyrri helming tímabilsins átti ég gott spjall við þjálfarann sem hafði hugsað sér að ég myndi nota fyrstu mánuðina til að kynnast því að spila í þýsku úrvalsdeildinni. Þess fyrir utan hefur Gert spilað frábærlega í vetur í öllum þeim leikjum sem hann hefur spilað. Ég hefði auðvitað viljað spila meira en ég hef gert en ég er sáttur við mína frammistöðu í þeim leikjum sem ég hef spilað."

Hann segist reiðubúinn að bíða. „Ég ætla mér að verða númer eitt í framtíðinni — sama hvenær það gerist. En flestöll lið í deildinni eru með tvo góða markverði og þetta er því eðlilegt."

Ný reynsla í SerbíuBjörgvin segir að færri mínútur á vellinum hafi áhrif á stöðugleika. Það hafi ef til vill endurspeglast á EM í Serbíu, þar sem hann átti misjafna leiki í upphafi mótsins.

„Auðvitað hefði ég viljað spila betur á EM. Varnarleikurinn var líka misjafn en ég hefði þrátt fyrir það viljað verja fleiri bolta. Ég var ósáttur við mig þá."

Björgvin hefur átt glæsilegan landsliðsferil og mótlætið í Serbíu var því ný reynsla fyrir hann. „Ég náði árangri mjög snemma og mjög fljótt. Uppgangurinn var hraður hjá mér og ég held að hluti af því var að ég fékk mikið að spila. Ég fann fyrir miklu trausti og það var mikilvægt," segir Björgvin.

Hann fékk líka að kynnast því í Serbíu að vera gagnrýndur af félögum hans í landsliðinu, til að mynda Aroni Pálmarssyni sem er góðvinur Björgvins.

Gagnrýni merki um gæði„Ég las þetta í fjölmiðlum eins og aðrir. Svo fór ég upp á herbergi til Arons og við horfðum saman á sjónvarpið," segir hann og brosir.

„Gagnrýni getur líka verið jákvæð. Þá þýðir að það eru gerðar kröfur til mín og er merki um að það sé mikil ábyrgð á mér. Þeir væru ekki að gagnrýna mig nema að þeir viti hvað ég get."

Eftir leikinn tók við andvökunótt og hann skrifaði frægan pistil þar sem hann bað íslensku þjóðina afsökunar.

„Ég er sjálfur minn mesti gagnrýnandi. Þetta var erfitt enda hafði mér gengið vel á öllum mínum stórmótum með landsliðinu. Þetta var í fyrsta sinn á ferlinum sem ég missti sjálfstraust á vellinum og það tók á. En ég fann líka fyrir miklum stuðningi úr öllum mögulegum áttum sem var ómetanlegt. Þannig unnum við úr þessu og þetta kom svo á endanum," segir hann en Björgvin sýndi aftur sitt rétta andlit með góðri frammistöðu í leikjum Íslands í milliriðlakeppninni.

Draumar geta ræst í MagdeburgBjörgvin Páll er stórhuga enda áður lýst því yfir að hann ætli sér að verða einn af bestu markvörðum heims. Hann telur að hann geti bætt sig hjá Magdeburg og að bjart sé fram undan hjá félaginu.

„Magdeburg er handboltabær. Íbúar þekkja frekar handboltamenn með nafni en fótboltamenn. Liðið er í hópi efstu liða deildarinnar og í Evrópukeppni. Fjárhagur félagsins er góður á meðan mörg önnur lið eru í basli. Félagið hefur unnið vel úr sínum málum."

Magdeburg hefur líka góða reynslu af Íslendingum enda þjálfaði Alfreð Gíslason liðið með góðum árangri. Ólafur Stefánsson, Sigfús Sigurðsson og Arnór Atlason spiluðu svo allir með liðinu á sínum tíma.

„Ég hagnaðist á því og það var auðveldara fyrir vikið að koma inn í félagið. Mér líður vel hér og hef þegar bætt mig sem markvörður. Ég er með stóra drauma og sé fyrir mér að ég geti látið þá rætast með Magdeburg. Hlutirnir breytast stundum fljótt í íþróttum en ég get vel ímyndað mér að vera hér í mörg ár til viðbótar."

Silfrið gerir mér gottSem fyrr segir er Björgvin einnig þekktur fyrir að hafa haslað sér völl utan handboltans með fyrirtæki sínu, S08 ehf. Fyrirtækið er fyrst og fremst þekkt fyrir Silver-hárgelið auk annarra vara en nýjasta verkefnið er fjarþjálfun sem skartar mörgum af skærustu íþróttastjörnum landsins. Hann segir að verkefni sem þessi hafi ekki bitnað á handboltanum og að hann sé því fyllilega einbeittur að íþróttinni.

„Ég hef heyrt gagnrýni á þessum nótum áður en tel að það sé einfaldlega ekki rétt. Ef ég hefði ekkert að gera á milli æfinga og leikja myndi það gera út af við mig. Sem dæmi má nefna að fyrstu tvo dagana í Serbíu var ég veikur og því í einangrun á hótelherberginu. Mér hefur sjaldan liðið jafn illa á ævinni," segir hann.

„Ég vil því nýta tímann sem ég hef fyrir utan handboltann. Ég hef gaman að því að sinna mínu fyrirtæki og ég vil hafa mikið fyrir stafni. Ég hef líka verið að sækja mér menntun og ætla að hefja fjarnám frá háskólanum í Bifröst í haust. Ég hef alltaf verið svona og ekkert meira að gera hjá mér núna en áður. Ég er nokkuð morgunhress maður og á meðan ég hef tíma og getu til að sinna þessum málum með þá held ég áfram að gera það."

Tók á að missa Hreiðar„Ég get að hluta til tekið það á mig að Hreiðari var skipt út,“ segir landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson um ákvörðun Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara að kalla Aron Rafn Eðvarðsson, markvörð Hauka, inn í landsliðið á kostnað Hreiðars Levýs Guðmundssonar fyrir milliriðlakeppnina á EM í Serbíu.

„Ef ég hefði staðið mína plikt og varið mína bolta hefði Hreiðar verið áfram inni. Það tók mikið á að sjá eftir honum þó svo að Aron Rafn hafi staðið sig gríðarlega vel. Það var samt erfitt að missa góðan vin úr hópnum,“ bætir Björgvin við.

„Að sama skapi er gott fyrir mig og Hreiðar að fá samkeppni í landsliðinu enda hefur Aron Rafn sýnt að hann er framtíðarmarkvörður - til dæmis með frammistöðu sinni í bikarleik Hauka og FH á dögunum. Það verður skemmtilegt að sjá í framtíðinni hvernig okkur þremur tekst að vinna úr því að spila saman í landsliðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×