Viðskipti innlent

Lífeyrissjóður verzlunarmanna lækkar fasta vexti niður í 3,9%

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið að lækka fasta vexti á nýjum sjóðfélagalánum úr 4,5% í 3,9%. Breytilegir vextir verða áfram 2,98%.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða hefðbundin sjóðfélagalán, verðtryggð með föstum vöxtum, það er vextir eru óbreytanlegir allan lánstímann. Þessir vextir verða nú 3,9%.

„Eftir efnahagshrunið haustið 2008 hefur þrengt mjög að lífeyrissjóðum landsins hvað varðar möguleika til að ávaxta fé sjóðfélaganna. Þannig hafa lífeyrissjóðirnir geymt stórar fjárhæðir á innlánsreikningum banka, með lítilli ávöxtun. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þar engin undantekning," segir í tilkynningunni.

„Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur í þessu ljósi tekið þá afstöðu, að farsælla sé að bjóða sjóðfélögum lán á bestu mögulegu kjörum, heldur en að geyma féð áfram á bankareikningum, sem ekki eru lengur samkeppnisfærir hvað ávöxtun varðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×