Handbolti

Patrekur vill mæta Íslandi í undankeppni HM 2013

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari austurríska landsliðsins.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari austurríska landsliðsins. Mynd/Stefán
Patrekur Jóhannesson, þjálfari austurríska landsliðsins í handbolta, segist gjarnan dragast gegn Íslandi í undankeppni HM 2013.

Patrekur tók við landsliði Austurríki síðastliðið haust en liðið komst í gegnum sinn riðil í forkeppni HM 2013 nú fyrr í mánuðinum. Austurríki var í riðli með Ísrael og Bretlandi og lenti ekki í teljandi vandræðum.

Austurríki náði frábærum árangri á heimavelli á EM 2010 en þá lék liðið undir stjórn Dags Sigurðssonar. Liðið náði ekki að fylgja því eftir á HM 2011 í Svíþjóð en þá var Magnus Andersson þjálfari liðsins.

Andersson mistókst svo að koma liðinu á EM 2012 þar sem Austurríki steinlá fyrir Íslandi í Laugardalshöllinni í vor í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kæmist áfram til Serbíu.

Patrekur hefur verið í Serbíu síðustu dagana til að sækja þjálfararáðstefnu og þá hefur hann einnig séð mikið af leikjum. Dregið verður í undankeppni HM 2013 á sunnudaginn og verður Ísland í efsta styrkleikaflokki en Austurríki neðsta. Liðin geta því dregist saman.

„Ég á mér engan óskamótherja," sagði hann í samtali við þýska fjölmiðla. „Við verðum hvort eð er ekki sigurstranglegri aðilinn, sama hvaða lið við fáum. Við ætlum okkur þó að koma á óvart."

„En sem Íslendingur myndi ég gjarnan vilja spila gegn minni þjóð," bætti hann við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×