Handbolti

Aron fékk slæma matareitrun

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Pálmarsson spilaði virkilega vel fyrir Ísland á EM.
Aron Pálmarsson spilaði virkilega vel fyrir Ísland á EM. Mynd/Vilhelm
Aron Pálmarsson, leikmaður Kiel, er á ágætum batavegi eftir að hafa fengið heiftarlega matareitrun sem hefur haldið honum í rúminu alla helgina.

„Ég fékk þetta annað hvort í Liverpool eða Kaupmannahöfn. Ég varð fárveikur á mánudaginn og hef verið slappur síðan," sagði Aron í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann nýtti fríið eftir EM til þess að skella sér á leik Liverpool og Man. Utd. um síðustu helgi. Í því fríi fékk hann máltíð sem var augljóslega ekki í lagi.

„Ég hef verið í meðferð hjá liðslækninum síðan þá og þurft að fá næringu í æð meðal annars. Þetta er hundfúlt því ég vildi vera að æfa en það er lítið við þessu að gera. Ég er samt boðaður á æfingu í fyrramálið [í dag] og mun láta reyna á þetta. Ég hlýt að vera orðinn góður um helgina," sagði Aron brattur.

Fyrsti leikur Kiel eftir Evrópumeistaramótið er næsta fimmtudag og Aron ætti að vera orðinn fullgóður þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×