Handbolti

Niklas Landin: AG verður bikarmeistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niklas Landin og Mikkel Hansen fagna á EM í Serbíu.
Niklas Landin og Mikkel Hansen fagna á EM í Serbíu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Niklas Landin, hinn frábæri markvörður nýkrýndra Evrópumeistara Dana, verður ekki í sviðsljósinu um helgina þegar úrslitin ráðasta í dönsku bikarkeppninni. Lið hans Bjerringbro Silkeborg komst ekki í undanúrslitin en sporten.tv2.dk fékk markvörðinn snjalla til þess að spá fyrir hvaða lið muni vinna.

„Það er bara eitt lið sem kemur til greina og það er AG Kaupmannahöfn," segir Niklas Landin. Með AG kaupmannahöfn spila einmitt Íslendingarnir Arnór Atlason, Snorri Steinn Guðjónsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson.

„Þeir eru með besta liðið og eru menn eins og Rene Toft Hansen og Mikkel Hansen sem koma sigurreifir til baka eftir EM. Þeir eru einnig með aðra leikmenn sem stóðu sig vel með öðrum þjóðum á EM," sagði Landin.

Undanúrslitin fara fram í dag en spilað er í Álaborg. AG kaupmannahöfn mætir Ajax í fyrri leiknum og í þeim síðari spila Nordsjælland Håndbold og Aalborg Håndbold. Með Nordsjælland spila einmitt Íslendingarnir Ólafur Guðmundsson og Gísli Kristjánsson. Útrslitaleikurinn fer síðan fram á sama stað á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×