Handbolti

Wilbek ætlar að hætta að þjálfa danska landsliðið árið 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ulrik Wilbek fagnar í leikslok.
Ulrik Wilbek fagnar í leikslok. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ulrik Wilbek, þjálfari Evrópumeistara Dana, ætlar að hætta með danska landsliðið eftir Evrópumótið í Danmörku sem fer fram eftir tvö ár en Danirnir reyna þá að verja titilinn á heimavelli.

Wilbek sagði í viðtali við DR Sporten að það breytti engu að danska liðið hafi orðið Evrópumeistari á sunnudaginn.

„Nei, það breytir engu. EM í Danmörku 2014 verður mitt síðasta stórmót með liðið," sagði Ulrik Wilbek en danska karlalandsliðið hefur unnið fimm verðlaun á stórmótum síðan að hann tók við liðinu árið 2006.

Flestir spá því að sigurganga Dana geti haldið áfram næstu árin enda margir lykilmanna liðsins tiltölulega nýskriðnir yfir tvítugt.

„Ég hef áhuga á að vinna sem íþróttastjóra hjá danska sambandinu og það er eitthvað sem ég er að ræða við sambandið um. Ég hef samt ekki ákveðið neitt um hvað ég geri eftir 2014 enda hef ég ennþá tvö ár til þess," sagði Ulrik Wilbek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×