Handbolti

Lars Christiansen: Danska liðið verður á toppnum næstu tíu árin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Christiansen með bikarinn.
Lars Christiansen með bikarinn. Mynd/AFP
Lars Christiansen, fyrirliði danska liðsins, tók við Evrópumeistarabikarnum í gær eftir að Danir unnu 21-19 sigur á Serbíu í úrslitaleiknum á EM í handbolta í Serbíu.

Lars Christiansen var að keppa á sínu næstsíðasta stórmóti því hann ætlar að leggja skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í London í haust. Hornamaðurinn skotvissi sér samt fram á glæsta tíma hjá danska landsliðinu á næstu árum.

„Margir af okkar lykilmönnum eru nýkomnir á þrítugsaldurinn og ég efast ekki um það að þetta lið og danskur handbolti verður á toppnum í heiminum næstu tíu árin," sagði Lars Christiansen við DR.

„Ungu leikmennirnir eru að verða betri og betri og með meiri reynslu getum við unnið fleiri mikilvæga leiki. Núna er tími danska liðsins að renna í garð," sagði Christiansen.

„Ég er mjög ánægður, í lok míns ferils, að fá að taka þátt í þessari nýju byrjun danska landsliðsins," sagði inn 39 ára gamli Christiansen.

„Það væri ekki hægt að skrifa betra ævintýri. Þetta var ótrúlegt því við vorum næstum því á leiðinni heim," sagði Lars en danska liðið kom stigalaust inn í milliriðilinn og flestir voru búnir að afskrifa þá.

„Við hefðum auðveldlega getað gefist upp en það kom aldrei til greina. Við héldum alltaf trúnni þótt að útilitið hafi stundum verið svart," sagði Lars Christiansen en danska liðið vann fimm síðustu leiki sína á Evrópumótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×