Handbolti

Ísland gæti mætt Tékklandi eða Noregi í undankeppni HM 2013

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu.
Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu. Mynd/Vilhelm
Eins og áður hefur verið greint frá verður Ísland í efsta styrkleikaflokki af þremur þegar dregið verður í undankeppni HM 2013 á sunnudaginn næstkomandi.

Handknattleikssamband Evrópu tilkynnti í dag hvernig fyrirkomulagið verður á drættinum. Spánn (gestgjafar) og Frakkland (heimsmeistarar) hafa þegar tryggt sér þátttökurétt og hið sama gerðu Serbar, Króatar og Danir þegar þeir tryggðu sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Næstu sjö þjóðir á eftir, þar á meðal Ísland, verða í fyrsta styrkleikaflokki. Liðin sem urðu í 13.-16. sæti á EM verða í öðrum styrkleikaflokki og þær sjö þjóðir sem komust í gegnum forkeppnina fyrr í þessum mánuði verða í þriðja styrkleikaflokki.

Drátturinn fer þannig fram að fyrst verður dregið úr skál númer 2. Þar verða fjórar kúlur - ein fyrir hverja þjóð í öðrum styrkleikaflokki. Tvær kúlur verða settar, án þess að þær verði opnaðar, skálina með liðum úr fyrsta styrkleikaflokki og hinar tvær í skálina með liðunum úr þriðja styrkleikaflokki.

Þannig verða níu kúlur í hvorri skál. Liðin verða dregin saman og munu mætast, heima og að heiman, í júní næstkomandi um sæti á HM 2013.

Það er því ljóst að Ísland gæti lent á móti hvaða þjóð sem er úr öðrum styrkleikaflokki en þar verða lið Tékklands, Noregs, Rússlands og Slóvakíu. Allt sterkar þjóðir sem myndi reynast Íslandi afar verðugur andstæðingur.

1. styrkleikaflokkur: Þýskaland, Ungverjaland, Ísland, Makedónía, Pólland, Slóvenía, Svíþjóð.

2. styrkleikaflokkur: Tékkland, Noregur, Rússland, Slóvakía

3. styrkleikaflokkur: Austurríki, Hvíta-Rússland, Litháen, Svartfjallaland, Holland, Portúgal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×