Viðskipti innlent

Advania velti 24,5 milljörðum

Velta samstæðu Advania hf. nam 24,5 milljörðum króna á árinu 2011 miðað við 22,1 milljarð árið áður, ef miðað er við sambærilegan rekstur, en það er 11% vöxtur. Þetta kemur fram í ársreikningi Advania.

Hagnaður samstæðunnar fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 1.068 milljónum króna samanborið við 790 milljónir árið áður. Vöxtur EBITDA milli ára nemur 35%. Eigið fé samstæðunnar í árslok 2011 nam 3.506 milljónum króna og er eiginfjárhlutfall 21,4%.

Öll félög innan samstæðunnar skiluðu hagnaði á árinu að undanskildu Advania í Noregi. Áætlun fyrir 2012 lítur einnig vel út en hún gerir ráð fyrir að velta ársins verði 25,4 milljarðar og EBITDA um 1,4 miljarðar. Það verður svipaður vöxtur milli ára, ef áætlun gengur eftir segir í tilkynningunni.

Hlutfall erlendra tekna er liðlega 60% hjá Advania-samstæðunni í dag og fer vaxandi.

Advania er eitt stærsta upplýsingafyrirtæki Norðurlanda með 1.100 starfsmenn og 20 starfstöðvar í fjórum löndum: Íslandi, Lettlandi, Noregi og Svíþjóð – en þar af starfa um 600 manns á Íslandi. Advania býður fjölbreyttar lausnir og þjónustu, sem svara kröfum og þörfum liðlega tíu þúsund viðskiptavina í atvinnulífinu. Lausnaframboð Advania spannar upplýsingatækni frá A til Ö, allt frá hugbúnaði og vélbúnaði til ráðgjafar, rekstrarþjónustu og hýsingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×