Viðskipti innlent

Lars Christensen spáir 2,2% til 2,9% hagvexti

Lars Christensen, forstöðumaður greiningar Danske Bank, spáir því að hagvöxtur hér á landi verði á bilinu 2,2% til 2,9% á næstu þremur árum. Hann segir einnig að verðbólga fari minnkandi þótt hún verði áfram yfir viðmiðum Seðlabankans.

Lars Christensen er nú að kynna nýja greiningu bankans á íslensku efnahagslífi á fundi VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka. Þetta er þriðja greiningin sem Danske Bank vinnur á Íslensku efnahagslífi, sú fyrsta árið 2006 og önnur árið 2011.

Í greiningunni kemur meðal annars fram að versnandi efnahagsástand í viðskiptalöndum Íslands í Evrópu hefur haft áhrif efnahagsbata landsins. Þrátt fyrir það muni hagvöxtur hér á landi vera yfir meðallagi næstu árin. Danske Bank gerir ráð fyrir að verg landsframleiðsla verði í kringum 2,2 til 2,9% á næstu þremur árum.

Í greiningunni kemur fram að einkaneysla muni fara minnkandi. Hún verði í kringum 3,8% á þessu ári en verði undir 3% á næstu árum. Þá er gert ráð fyrir að fjárfesting verði í 8 til 9% á þessu og næsta ári. Verðbólga heldur áfram að vera yfir viðmiðum Seðlabankans en gert er ráð fyrir að verðbólguþrýstingur fari minnkandi. Greiningin spáir 3,7% verðbólgu á næsta ári, 3,1% árið 2013 og 2,6% árið 2014.

Samfara batnandi efnahagslífi hefur vinnumarkaðurinn tekið við sér og er gert ráð fyrir áframhaldandi styrkingu hans. Danske Bank gerir ráð fyrir atvinnuleysi haldi áfram að minnka og verði í kringum 5% árið 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×