Handbolti

Serbía síðasta liðið inn í undanúrslitin á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Serbía varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum á Evrópumóti kvenna í handbolta sem fer einmitt fram í Serbíu en keppni í milliriðlum lauk í kvöld. Noregur, Svartfjallaland og Ungverjalandi voru búin að tryggja sér sæti í undanúrslitunum fyrir síðasta leikdag í milliriðlunum tveimur.

Serbía tryggði sér annað sætið í sínum riðli með því að vinna dramatískan 18-17 sigur á Frakklandi. Frakkar og Danir áttu einnig möguleika á því að komast í undanúrslitin, Frakkar með því að vinna Serba og að Dönum tækist ekki að vinna Norðmenn. Danir urðu á treysta á franskan sigur sem og að vinna Norðmenn.

Danir tryggðu sér leik um fimmta sætið á mótinu á móti Rússlandi með því að vinna Noreg 35-33 en þetta var fyrsta tap norska liðsins á mótinu. Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs, hvíldi lykilmenn í leiknum.

Undanúrslitin fara fram á laugardaginn og þar mætast Noregur og Ungverjaland í fyrri leiknum en í seinni leiknum spila síðan Svartfjallaland og Serbía. Úrslitaleikurinn fer síðan fram á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×