Viðskipti innlent

Ferðaþjónustan skilaði nær 48 milljörðum í sumar

Afgangur á þjónustujöfnuði vegna ferðalaga og af samgöngum nam tæplega 48 milljörðum króna í sumar. Þetta er 8,6 milljörðum króna meiri afgangur en í fyrra.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á þriðja ársfjórðungi í ár skiluðu þjónustuviðskipti við útlönd meiri afgangi en þau hafa nokkru sinni áður gert á einum ársfjórðungi. Hljóðar afgangurinn upp á 34,8 milljarða kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar, sem er yfir fimmtungi meiri afgangur en í fyrra.

Tölur Hagstofunnar benda til þess að ferðamannasumarið 2012 hafi verið það gjöfulasta frá upphafi. Það ætti ekki að koma spánskt fyrir sjónir enda hafa aldrei verið jafn margir erlendir ferðamenn hér á landi og nú í ár," segir í Morgunkorninu.

„Sé tekið mið af tölum Ferðamálastofu Íslands þá fóru rúmlega 292 þúsund erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð á þriðja ársfjórðungi, sem er aukning upp á rúm 16% frá sama tímabili í fyrra."

Síðan segir að á þriðja ársfjórðungi var afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga 20,1 milljarður kr. og af samgöngum 27,6 milljarðar kr. Samanlagt er hér um að ræða afgang upp á 47,7 milljörðum kr. á fjórðungnum, en á sama tímabili í fyrra var hann 39,1 milljarði kr. Þýðir þetta m.ö.o. að ferðamennska og aðrir flutningar hafi skilað 8,6 milljörðum kr. meira af gjaldeyrisinnflæði en á sama tímabili í fyrra, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×