Viðskipti innlent

Alls óvíst hvenær nauðasamningar ganga í gegn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kaupþing féll árið 2008.
Kaupþing féll árið 2008.
Kaupþing treystir sér ekki til þess að segja til um það hvenær hægt verður að leggja fram frumvarp að nauðasamningi. Ástæðan er sú að til þess að hægt sé að leggja slíkt frumvarp fram þarf Seðlabanki Íslands að samþykkja útgreiðslur til kröfuhafa utan Íslands á grundvelli gjaldeyrislaga.

Slitastjórn Kaupþings, segir í tilkynningu til fjölmðla í dag, að óskað hafi verið eftir slíku samþykki en þar sem svar hafi ekki borist er ljóst að ekki verður unnt að hefja hið formlega nauðasamningsferli fyrir áramót.

Í ljósi þess að óvissa ríki um það hvenær erindi Kaupþings til Seðlabanka Íslands verði svarað sé ekki mögulegt að birta nýja tímaáætlun vegna fyrirhugaðs nauðasamnings. Kaupþing muni halda áfram undirbúningi að nauðasamningi, ásamt ráðgjöfum félagsins. Kaupþing mun kappkosta að vinna náið með Seðlabanka Íslands í tengslum við þau álitamál sem upp kunni að koma vegna ofangreinds erindis.

Slitastjórn Glitnis hefur áður sagt að alls óvíst sé hvenær hægt verði að leggja fram frumvarp að nauðasamningum og er það af sömu ástæðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×