Viðskipti innlent

Græn framtíð endurnýtir raftæki á Nýfundnalandi

Dennis O'Keefe, borgarstjóri St. John's, og Bjartmar Alexandersson framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar.
Dennis O'Keefe, borgarstjóri St. John's, og Bjartmar Alexandersson framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar.
Græn framtíð hefur samið við borgaryfirvöld í St. John's á Nýfundnalandi og Labrador um endurnýtingu á öllum smáraftækjum sem eru ekki lengur í notkun á vegum borgarinnar. Um er að ræða farsíma, fartölvur, netlykla, myndavélar og önnur sambærileg smáraftæki.

Í tilkynningu segir að söfnunarkössum verður komið fyrir á skrifstofum borgarinnar og í ráðhúsi fyrir starfsfólk borgarinnar, en almenningur mun einnig eiga kost á því að skila ónýtum og gömlum smáraftækjum sem ekki eru lengur í notkun. Allur búnaður er sendur til vottaðra endurnýtingarfyrirtækja í Evrópu, þar sem gert er við búnaðinn eða hann notaður í varahluti.

Borgin St. John's er hluti af Nýfundnalandi og Labrador, sem er hérað í Kanada. Í St. John´s og nágrenni búa um 160 þúsund manns en um 515 þúsund í öllu héraðinu.

„Samningurinn við borgaryfirvöld í St. John's er fyrsta skrefið sem er stigið í endurnýtingu á smáraftækjum á Nýfundnalandi, en slík áætlun hefur ekki legið til staðar hjá yfirvöldum hingað til. Við vonumst til þess að íslenskt umhverfishugvit verði til þess að efla umhverfisvernd og endurnýtingu á hvers kyns búnaði hér vestra," segir Bjartmar Alexandersson framkvæmdastjóri Grænnar framtíð um samninginn við borgaryfirvöld í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×