Viðskipti innlent

Forseti Alþingis fundar með rannsóknarnefnd um ÍLS á morgun

Magnús Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, mun funda með rannsóknarnefnd Alþingis um málefni Íbúðalánasjóðs á morgun klukkan 15:00 og fá þá upplýsingar um hvenær vinnu nefndarinnar lýkur og skýrsla hennar verður birt almenningi.

Formaður nefndar um rannsókn á Íbúðalánasjóði er Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari. Með honum í nefndinni eru Kirstín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.

Er nefndinni ætlað að rannsaka starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans, sem hrundið var í framkvæmd á árinu 2004, og til ársloka 2010. Enn fremur á nefndin að meta áhrifin af þessum breytingum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á þessum tíma á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni.

Þá er nefndinni ætlað að meta áhrif starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála og loks að leggja mat á hversu vel sjóðnum hefur tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á tímabilinu
, líkt og nefnt er í þingsályktun Alþingis frá 17. desember 2010.

Ríkisstjórnin ákvað í gær að leggja Íbúðalánasjóði til allt að 13 milljarða króna, vegna veikrar eiginfjárstöðu sjóðsins. Árið 2010 ákvað ríkisstjórnin að leggja 33 milljarða til sjóðsins, til þess að styrkja stöðu hans, og því nemur samanlagt framlag til sjóðsins úr ríkissjóði 46 milljörðum króna eftir hrunið. Ekki er útilokað að það verði mun hærra, þegar upp er staðið, en samkvæmt greiningu sem IFS vann fyrir stjórnvöld er fjárþörf sjóðsins næstu þrjú ár 22,5 milljarðar króna. Þá glímir sjóðurinn einnig við önnur vandamál, eins og það að lítil sem engin eftirspurn er eftir verðtryggðum lánum sjóðsins um þessar mundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×